18.4.2009 | 00:34
Ný störf á nýjum forsendum
Næstu ár munu verða okkur Íslendingum erfið. Búast má við enn frekari niðurskurði á fjárlögum 2010. Mjög mun reyna á allar stoðir samfélagsins og hlutskipti margra fjölskyldna og einstaklinga verður erfitt. Við verðum að leggja áherslu á að endurreisa samfélagið á gildum sem gleymdust í frjálshyggjuæðinu. Samvinnu, jöfnuð, gagnsæi og lýðræði. Engum er betur treystandi fyrir því en Framsóknarflokknum. Megináhersla komandi missera er að skapa ný störf, efla útflutning og nýsköpun.
Skynsamlegt er að ná fram viðhorfsbreytingu í fyrirtækjarekstri. Uppbygging á að vera markmiðið, ekki hvað þú getur náð miklum fjármunum út úr rekstrinum. Við þurfum að hugsa aftur um möguleika samvinnurekstrarins, einn maður, eitt atkvæði og ábati skilar sér til félagsmanna í hlutfalli við viðskipti. Samvinnuformið er algengt við margskonar rekstur út um allan heim. Nýta þarf þá möguleika sem samvinnufélögin gefa við lausn margvíslegra samfélagsmála við uppbyggingarstarf næstu ára.Í þeirri uppbyggingu sem framundan er má ekki láta gleyma landsbyggðinni. Þar eins og annars staðar þarf að efla nýsköpun og atvinnuþróun. Mikilvægt atriði til að ná árangri og framförum er að tryggja landsbyggðinni aðgengi að háhraðanettengingum og farsímaþjónustu. Það eru mikil vonbrigði hversu hægt þetta hefur gengið. Stórátak þarf við að bæta ófullnægjandi vegtengingar við þjóðvegakerfið enda má segja að nú sé rétti tíminn til að ráðast í mannaflsfrekar framkvæmdir. Mikilvægt er að styðja við landbúnað til að tryggja fæðuöryggi og gera það sem í okkar valdi stendur til að auka verðmætasköpun í greininni. Kreppan og gjaldeyrisskorturinn hefur enn á ný fært sönnur á mikilvægi íslensks landbúnaðar. Engin trygging er fyrir því á tímum mikillar óvissu í heiminum að fæðuframboð sé tryggt og öruggt. Ekki er heldur víst að við eigum gjaldeyri til að kaupa inn vörur sem við getum framleitt hér heima. Með þessar staðreyndir að leiðarljósi þarf að treysta stoðir íslensks landbúnaðar og hefja nýja sókn. Sjávarútvegur hefur í áratugi verið grunnurinn undir efnahag þjóðarinnar og útflutningur sjávarafurða gegnir veigamiklu hlutverki í þeirri efnahagslægð sem við erum í um þessar mundir. Skapa verður sátt um íslenskan sjávarútveg. Það mun taka tíma en sú sátt verður að tryggja áframhaldandi hagkvæmni og stöðugleika, þannig að hann nái áfram að skapa þjóðinni sem mestar gjaldeyristekjur.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)